Spurt og svarað

Spurt og svarað

Hvað er lánsfjárkreppa?


Lánsfjárkreppa stafar yfirleitt af því þegar traust milli bankastofnana þverr vegna óvissu þeirra um stöðu hvers annars. Meðal afleiðinga eru gjarnan miklar hækkanir vaxta og lausafjárskortur hjá fyrirtækjum sem hafa ekki lengur aðgang að lánsfjármagni. Þar sem hluti af fjármögnun fjármálafyrirtækja fer fram með reglulegum lántökum á lánsfjármarkaði eykst mjög hættan á að þau lendi í lausafjárskorti og geti ekki mætt skuldbindingum sínum á gjalddaga með alvarlegum afleiðingum jafnvel þótt eiginfjárstaða þeirra sé sterk og félagið ekki gjaldþrota í eiginlegri merkingu. Sú leið að losa um fjármagn með sölu eigna getur verið torsótt á tímum lánsfjárkreppu því fjármögnun kaupa er erfið. Þetta ástand eykur enn á ótta aðila á markaði við að hver sem er geti lent í vanda með mjög litlum fyrirvara og ýtir undir að fjármálastofnanir haldi í allt laust fé eins og hægt er og lán milli banka stöðvist nær alveg nema á afarkjörum. Lánsfjárkreppa getur því skapað vítahring sem dýpkar kreppuna og hefur að lokum alvarleg áhrif á alla atvinnustarfsemi sem fær ekki lengur nauðsynlegt fjármagn til vaxtar og uppbyggingar.

Seðlabankar eru upphaflega settir á fót til að gegna hlutverki lánveitanda til þrautavara, þ.e. að veita lán til banka sem skortir lausafé þrátt fyrir að hafa heilbrigða eiginfjárstöðu. Í þeirri lánsfjárkreppu sem fór hratt dýpkandi á þessu ári og leiddi að lokum til falls nær allra stóru fjárfestingabankanna á Wall Street og fjölda annarra banka, þ.m.t. þriggja stærstu bankanna á Íslandi, hafa seðlabankar víða um heim lagt fjármálakerfinu til ómælt fjármagn og á tímum ekki aðeins gegnt hlutverki lánveitanda til þrautavara heldur í raun verið eini mögulegi lánveitandinn. Lykilatriði til lausnar er að aftur skapist traust á mörkuðum.

Hvað er gjaldeyriskreppa?

Gjaldeyriskreppa er ástand þegar alvarlegt ójafnvægi verður á gjaldeyrismarkaði af því framboðshliðin hrynur og innstreymi erlends gjaldeyris nær stöðvast. Afleiðingar eru mjög mikil veiking innlenda gjaldmiðilsins enda engin eftirspurn eftir honum við þessar aðstæður og mikil samkeppni um þann erlenda. Óttinn við minnkandi framboð ýtir svo enn undir eftirspurnina (hamstur). Veiking gengisins í gjaldeyriskreppu er því gjarnan „undirskot“ eða langt niður fyrir jafnvægisgengi.

Alvarlegar afleiðingar
Áhrifin á efnahag heimila og fyrirtækja geta verið mikil allt eftir því hversu mikil erlend lán fyrirtækja og heimila eru. Hætt er við fjölda gjaldþrota og auknu atvinnuleysi. Verðbólga getur orðið mjög mikil vegna verðhækkana á innfluttum vörum, bæði neysluvörum, hráefni og tækjabúnaði til iðnaðar auk þess sem framboð erlends gjaldeyris getur orðið svo takmarkað að vöruskortur verði með tilheyrandi ójafnvægi framboðs og eftirspurnar. Þetta veldur minnkandi kaupmætti og þegar atvinnuleysi bætist við dregur hratt úr eftirspurn sem aftur eykur enn erfiðleika hjá fyrirtækjum í framleiðslu og þjónustu fyrir innlendan markað.

Jákvæðu áhrifin eru hins vegar þau að viðskiptajöfnuður lagast og samkeppnisstaða útflutningsgreina batnar vegna þess að framleiðslukostnaður í landinu lækkar hlutfallslega samanborið við önnur svæði.

Aðdragandi gjaldeyriskreppu

Flestar gjaldeyriskreppur hafa átt rætur að rekja til fastgengisstefnu þar sem stjórnvöld reyna að halda gengi gjaldmiðils sem næst óbreyttum þrátt fyrir að jafnvægisgengi hafi breyst. Þegar þetta bil er orðið of mikið brestur markaðurinn með framangreindum afleiðingum. Hvatarnir sem koma hrinda atburðarásinni af stað geta verið margvíslegir en þar kemur alltaf til sögu annars vegar ójafnvægi framboðs og eftirspurnar og hins vegar sálfræðilegir þættir á borð við ótta eða skort á trausti.

Dæmi um þetta er Indónesía þar sem gengi landsins var í raun of hátt skráð sem leiddi til þess að innlendi geirinn notaði sífellt meira af gjaldeyri vegna þess hve ódýr hann var. Bæði atvinnulífið og heimilin skuldsettu sig í erlendum gjaldeyri. Þegar munurinn á skráðu gengi og jafnvægisgengi var orðinn svo mikill að markaðurinn brast, juku áhyggjurnar af gjaldþrotum skuldsettra fyrirtækja og áhrifum þeirra á hagkerfið enn á gjaldeyriskreppuna.

Í Finnlandi var gengi haldið stöðugu með stýrivöxtum. Þegar Sovétmarkaðurinn hrundi hvarf stór hluti gjaldeyristekna þjóðarinnar með alvarlegum afleiðingum fyrir atvinnulíf í Finnlandi. Þrátt fyrir þetta var genginu áfram haldið föstu með háum stýrivöxtum. Vextirnir voru mörgum atvinnugreinum mjög þungbærir og ójafnvægi milli fastgengisins og jafnvægisgengisins jókst þar sem til gengiskreppa skall á.

Hér á landi á aðdragandinn margt sameiginlegt með báðum þessum dæmum. Alþjóðleg lánsfjárkreppa bitnaði mjög hart á íslensku fjármálakerfi vegna ótta við hrun þess og ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þegar fjármálahrun varð svo hér á landi voru afleiðingar að allt innstreymi fjármagns stöðvaðist og lausafjárþurrð varð á markaði.

Leiðir úr gjaldeyriskreppu

Í grundvallaratriðum eru tvær leiðir út úr gjaldeyriskreppu. Önnur er sú að gefa gjaldeyrisviðskipti frjáls svo gjaldmiðillinn fái verð í betra samræmi við jafnvægi. Hin er sú að flytja gengið til handvirkt og reyna að stilla það af í samræmi við jafnvægisgildi. Til að verja slíkt handstýrt gengi þarf yfirleitt bæði viðamikil höft á viðskiptum og umtalsverðan gjaldeyrisforða og því meiri sem höftin eru minni. Vegna þessa eru frjáls gjaldeyrisviðskipti eða svokallaður „fljótandi“ gjaldmiðill algengari lausn í markaðshagkerfum.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, IMF, er sá aðili sem lengsta reynslu hefur af því að aðstoða ríki út úr gjaldeyriskreppum með margvíslegri lánafyrirgreiðslu og ráðgjöf sem miðar að jafnvægi á gjaldeyrismarkaði og í þjóðarbúskapnum í heild. Fleyting gengis á ný eftir gjaldeyriskreppu er sjaldnast án áhættu og því þarf yfirleitt nokkurn gjaldeyrisforða til að mæta útstreymi fjármagns sem getur valdið tímabundinni frekari lækkun gengisins. En hin ýkta veiking gengisins vegna markaðsbrestsins auk þeirra jákvæðu áhrifa sem birtast í bættum viðskiptajöfnuði og sterkari samkeppnisstöðu útflutningsgreina þýðir að í gengiskreppu er gengið yfirleitt talsvert mikið undir jafnvægi og því hefur það yfirleitt styrkst þegar gjaldeyrismarkaðurinn nær aftur jafnvægi. Líkt og í hvötum gjaldeyriskreppunnar skiptir traust á að aðgerðin takist og að gjaldmiðillinn rétti úr kútnum einnig máli við að ráða niðurlögum hennar. Væntingar um gengisstyrkingu ýta undir að hún verði að veruleika.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica