Um efnahags- og viðskiptaráðuneyti

Um ráðuneytið

Saga efnahags- og viðskiptaráðuneytis

Efnahags- og viðskiptaráðuneytið tók til starfa 1. október 2009. Í kjölfar bankahruns í október 2008 báðu stjórnvöld Kaarlo Jännäri, finnskan bankasérfræðing, að leggja mat á  lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi og gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur. Ein af tillögum hans var sameining helstu verkefna efnahagsmála undir eitt ráðuneyti, en þau höfðu dreifst á mörg ráðuneyti fram að því.

Til að ná þessum markmiðum og öðrum var lögum um Stjórnarráð Íslands breytt og efnahags- og viðskiptaráðuneytið varð til í núverandi mynd. Nýja ráðuneytið tók við verkefnum á sviði efnahagsmála úr forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti, þar með talið yfirstjórn Seðlabanka Íslands og Hagstofu Íslands. Starfsemi efnahagsskrifstofu forsætisráðuneytis fluttist til ráðuneytisins og hluti af efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis. Þá fluttust málefni sem varða bókhald, endurskoðendur og ársreikninga til ráðuneytisins.

Ráðuneytið erfði jafnframt flest verkefni viðskiptaráðuneytisins, meðal annars yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins, Einkaleyfastofu og Samkeppniseftirlitsins. Þó færðust verkefni sem varða umsýslu alþjóðlegra viðskiptasamninga til utanríkisráðuneytis og ýmis lög er varða verkefni á vegum Neytendastofu og talsmanns neytenda til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins (nú innanríkisráðuneytis).

Meðal helstu verkefna ráðuneytisins á upphafsárum þess voru meðal annars endurskoðun regluverks og aðhalds með fjármálastarfsemi, lagasetning í kjölfar svokallaðs gengislánadóms Hæstaréttar, endurskoðun innistæðutryggingakerfisins, áætlun um losun gjaldeyrishafta og samskipti við Eftirlitsstofnun EFTA vegna Icesave-deilunnar. Ráðuneytið hafði umsjón með efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá stofnun til loka hennar 26. ágúst 2011.  

Saga viðskiptaráðuneytisins

Viðskiptaráðuneytið var stofnað 17. apríl 1939. Á starfstíma ráðuneytisins hafa viðskiptahættir í heiminum tekið stakkaskiptum og hafa verkefni ráðuneytisins í gegnum tíðina dregið dám af þeim breytingum.

Á fyrstu starfsárum ráðuneytisins í seinni heimsstyrjöldinni sinnti það aðallega verkefnum á sviði innflutnings- og gjaldeyrismála. Ráðuneytið sá um úthlutun innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, en hvorttveggja var bundið höftum á þessum tíma. Að stríðinu loknu fór ráðuneytið í auknum mæli að sinna því alþjóðastarfi á sviði efnahags- og viðskiptamála sem smám saman var komið á fót í kjölfar styrjaldarinnar og á árunum 1948-1953 var ýmis konar umsýsla vegna Marshallaðstoðarinnar eitt höfuðverkefni viðskiptaráðuneytisins. Næstu árin voru helstu verkefni ráðuneytisins framkvæmd viðskiptasamninga við önnur ríki. Allt fram á miðjan níunda áratuginn voru í gildi hérlendis víðtæk verðlagsákvæði og var verðlagseftirlit á verksviði ráðuneytisins. Þá sá ráðuneytið fram til ársins 1992 um niðurgreiðslur til afurðarstöðva á landbúnaðarvörum.

Á alþjóðlegum vettvangi sinnti viðskiptaráðuneytið frá því snemma á sjöunda áratugnum samstarfi við Efnahags- og þróunarstofnunina, OECD, sem og verkefnum vegna aðildar Íslands að tolla- og viðskiptasamtökunum, GATT. Þá hafði viðskiptaráðuneytið umsjón með samningaviðræðum um aðild að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA, en Ísland varð aðili að samtökunum árið 1970. Ráðuneytið tók virkan þátt í samningagerð um evrópska efnahagssvæðið og gegndi mikilvægu samræmingarhlutverki við þá samningagerð, s.s. varðandi stefnumótun um erlendar fjárfestingar á Íslandi.

Við inngöngu Íslands í EFTA, var frelsi til innflutnings aukið til muna, gjalderyisshöft voru og smám saman rýmkuð og gjaldeyrisviðskipti að öllu leyti gefin frjáls frá og með1. janúar 1994.

Eftir að frelsi í verslun og viðskiptum hefur verið aukið og leyfi af ýmsu tagi aflögð, hefur meginverkefni ráðuneytisins verið að setja almennar leikreglur á sviði viðskipta. Ýmsir mikilvægir málaflokkar falla undir verkefnasvið þess, t.d. samkeppnismál, málefni fjármagnsmarkaðarins (banka- og verðbréfaviðskipti), félagaréttar, samninga- og kauparéttur, neytendamál og málefni verslunarinnar almennt. (sjá: Skipurit ráðuneytisins).
Iðnaðarráðuneyti og viðskiptaráðuneyti voru rekin með sameiginlegu starfsliði og í sama húsnæði samkvæmt bréfi forsætisráðherra, dags. 2. júní 1992, í samræmi við heimild í 10. gr. laga nr. 73/1969 um Stjórnarráð Íslands til 24. maí 2007. Einn ráðherra fór með bæði ráðuneytin frá 28. sept. 1988 til 24. maí 2007.

Þetta vefsvæði byggir á Eplica